Saga skólans

Saga skólans

21/10/2010

Tónlistarskóli Árnesinga var stofnaður árið 1955 að frumkvæði sr. Sigurðar Pálssonar fyrrum vígslubiskups og Rotaryklúbbi Selfoss. Hafist var handa með kosningu undirbúningsnefndar sem setti allt í gang. Guðmundur Gilsson síðar tónlistarstjóri Ríkisútvarpsins, var að ljúka tónlistarnámi í Þýskalandi og féllst á að taka að sér starf organista við Selfosskikju og skólastjórn tónlistarskólans. Urðu nemendur strax um 50 talsins.  

Guðmundur Gilsson var skólastjóri Tónlistarskóla Árnesinga til ársins 1968, en á eftir honum komu Jón Ingi Sigurmundsson 1968 - 1971, Glúmur Gylfason 1971 - 1972, Jónas Ingimundarson 1972 - 1974, Sigurður Ágústsson 1974 - 1978, Ásgeir Sigurðsson 1978 - 2000 og Róbert A. Darling frá 2000. 

Það má með sanni segja að Tónlistarskóli Árnesinga sé stór og umsvifamikill, sem af sjálfu leiðir þar sem starfsemin fer fram svo víða sem raun ber vitni. Kennt er á tólf stöðum í sýslunni, öllum kaupstöðum, kauptúnum og uppsveitum. Fjöldi nemenda er um 500. Um 30 kennarar starfa að jafnaði við skólann.

Mikið og gott starf hefur verið unnið af þeim sem hafa helgað krafta sína skólanum. Í dag eru það öll sveitarfélög Árnessýslu sem standa að rekstri skólans. Skólastjóri er Helga Sighvatsdóttir, aðstoðarskólastjóri er Jóhann Stefánsson  og deildarstjórar eru  (Jóhann Stefánsson blásaradeild),  Edit Anna Monár (tónfræði- og forskóladeild), María Weiss (strengja- og Suzukideild), Margrét S. Stefánsdóttir (söng- og kammerdeild) og Vignir Ólafsson (gítar- og rytmísk deild).

Starfsemi Tónlistarskóla Árnesinga hefur verið blómleg í gegnum tíðina. Fjölmargir tónleikar hafa verið haldnir, bæði smáir tónfundir í einstaka deildum og svo stórir sameigilegir tónleikar með öllum deildum.

Samskipti hafa verið góð við aðra tónlistarskóla, bæði hér heima og í öðrum löndum. Hljómsveitir skólans hafa ferðast bæði innan lands og utan. Strengjasveit skólans hefur m.a. farið til Svíþjóðar, Austurríkis og Póllands, blásarasveit skólans hefur farið til Króatíu og Spánar og blokkflautusveitin til Hollands.

Ekki er útlit fyrir að áhugi fólks fyrir tónlistarnámi fari dvínandi á næstu árum, heldur þvert á móti og er það verðugt verkefni að styrkja og efla tónlistarmenntun í landinu til sjávar og sveita. Tónlistarskóli Árnesinga mun hér eftir sem hingað til leggja sitt af mörkum til framtíðarinnar.