Tónlistarskóli Árnesinga 1955 – 2025
Tónlistarskóli Árnesinga var settur í fyrsta sinn í október árið 1955 og fagnar því 70 ára afmæli í haust.
Í tilefni af afmælinu verða haldnir hátíðartónleikar þann 15. nóvember kl. 14:00 í íþróttahúsinu á Laugarvatni.
Á tónleikunum leiða saman hesta sína nemendur úr öllum hljóðfæra- og söngdeildum skólans auk þess sem leikskólabörn úr Uppsveitum og Flóa taka þátt í ævintýrinu. Það má því reikna með að flytjendur verði á annað hundrað. – Í verkefnavali er horft til tónskálda, útsetjara og hljómsveita úr Árnessýslu, auk þess sem tónbókmenntir hljóðfæranna fá að njóta sín.
Hljóðfærahópar og söngvarar æfa núna í öllum hornum skólans. Myndirnar hér fyrir neðan voru teknar á æfingu píanónemenda í Stekkjaskóla, en þeir koma til með að leika saman Litla kvæðið um litlu hjónin eftir Pál Ísólfsson.

/Helga Sighv.