Tónleikahald2022-06-16T13:49:20+00:00

Tónleikahald

Framkoma á tónleikum er mjög mikilvægur hluti tónlistarnáms og miðað við að hver nemandi komi fram á tónleikum/viðburðum a.m.k. tvisvar yfir skólaárið.

Tónlistarnám snýst ekki hvað síst um að þjálfast í að leika fyrir áheyrendur. Það er því mikilvægt að fá tækifæri til að koma fram bæði sem einleikarar og í hópum svo upplifunin verði jákvæð. Markmiðið er að nemendur njóti þess að flytja tónlist og gefa af sér í tónlistarflutningi.

Tónleikahald er með fjölþættu sniði í Tónlistarskóla Árnesinga. Í listanum hér á eftir má sjá helstu tónleika sem haldnir eru á hverju skólaári:

Haust- og vortónleikar. Hver kennari heldur tónleika haust og vor með sínum nemendum. Á þessum tónleikum fá nemendur grunnþjálfun í að koma fram, þ.á.m. að ganga á svið, æfa hneigingar, flytja tónlist og jafnvel kynna sín verk.

Deildatónleikar eru haldnir í nóvember ár hvert. Tónleikarnir eru sjö og skiptast upp eftir deildum: blásaradeild, blokkflautudeild, gítardeild, strengjadeild, rytmísk deild, píanódeild og söngdeild. Á tónleikunum er hljómsveitum, samspilshópum og öðru samspili gert hátt undir höfði og því mikill fjöldi nemenda sem kemur fram á deildatónleikum.

Jólaspilamennska í desember er fastur liður starfseminnar. Nemendur fara með kennurum sínum „út í bæ“ og leika fyrir samborgara. Má þar nefna elli- og hjúkrunarheimili, leikskóla, á jólaböllum grunnskólanna, á fundum félagasamtaka, vinnustofum og vistheimilum fatlaðra, í verslunum og víðar.

Svæðistónleikar eru haldnir í tenglsum við Dag tónlistarskólanna 7. febrúar. Svæðistónleikar eru sjö talsins og skiptast eftir svæðum: Vestan Hvítár (nemendur úr Bláskógabyggð og Grímsnes- og Grafningshreppi), Austan Hvítár (nemendur úr Hrunamannahreppi, Skeiða- og Gnúpverjahreppi og Flóahreppi), Ströndin (nemendur frá Stokkseyri, Eyrarbakka og Þorlákshöfn), Hveragerði (nemendur úr Hveragerði og nágrenni), Selfoss (tvennir tónleikar með nemendum frá Selfossi).

Nótan (uppskeruhátíð tónlistarskóla á landsvísu) er haldin í mars/apríl. Hver skóli tilnefnir tónlistaratriði til þátttöku á svæðistónleikum Nótunnar (Suðurland, Suðurnes og Kraginn er okkar svæði). Valin atriði af svæðistónleikum eru flutt á lokatónleikum Nótunnar.

Vínarbrauðstónleikar strengjadeildar eru haldnir annað hvert ár í byrjun maí. Á tónleikunum koma fram báðar strengjasveitir skólans, allir Suzuki-strengjahópar auk smærri samspilsatriða.

Píanó-hringekjutónleikar er nýjung í skólastarfinu. Á þessum tónleikum leika píanónemendur fjórhent og sexhent lög, sem er spennandi fyrir nemendur sem alla jafna eru í einleikshlutverki.

Skólaslit eru haldin á 10 kennslustöðum í maílok með tónlistarflutningi og afhendingu prófskírteina. Skólaslitin eru með ólíkum hætti og fer dagskrá eftir fjölda nemenda. Á minnstu kennslustöðunum koma allir nemendur fram og eru skólaslitin þá um leið vortónleikar nemendanna. Á stærri kennslustöðum eru valin atriði flutt sem sýna þversnið kennslunnar, bæði samleiks- og einleiksverk. Á Selfossi koma nær eingöngu fram hljómsveitir og samspilshópar og atriðin fá, enda margir sem fá afhent skírteini. Dagskrá skólaslita er alltaf hátíðleg og mikil uppskeruhátíð á hverjum kennslustað.

Annar tónlistarflutningur og mót. Auk ofangreindra fastra liða á skólaárinu, taka nemendur þátt í ýmsum viðburðum innan og utan skólans. Má þar nefna Ungsveit sinfóníuhljómsveitar Íslands, sinfóníuhljómsveit tónlistarskólanna, landsmót af ýmsu tagi (lúðrasveita-, strengja-, blokkflautumót o.s.frv.), tónlistarkeppnir o.fl. o.fl.

Þessi vefur notar vafrakökur (cookies) til að tryggja sem besta upplifun þegar hann er skoðaður. Þessi borði hverfur þegar þú samþykkir notkun. Þú getur breytt stillingum á kökum hvenær sem er. Í lagi