Námsmat2022-03-09T10:16:12+00:00

Námsmat í Tónlistarskóla Árnesinga

 

Námsmat fer fram með fjölþættum hætti í Tónlistarskóla Árnesinga. Má þar nefna próf, miðsvetrar- og vormat, tónleikahald og að sjálfsögðu reglulega endurgjöf í hverri kennslustund og einstaklingsbundin viðmið.

Hér á eftir er farið nánar yfir tegundir og hlutverk hvers námsmats.

 

Tónlistarskóli Árnesinga starfar samkvæmt Aðalnámskrá tónlistarskóla, sem gefin er út af menntamálaráðuneytinu.

 

Prófanefnd tónlistarskóla (profanefnd.is) starfar á grunni aðalnámskrár tónlistarskóla og heldur utan um samræmd próf á landsvísu. Tónlistarskóli Árnesinga er aðili að prófanefnd tónlistarskóla.

 

  1. Áfangapróf. Samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla er tónlistarnámi skipt í þrjá megin áfanga sem lýkur hverjum fyrir sig með samræmdu áfangaprófi.
  • Grunnnámi (1. – 3. stigi) lýkur með grunnprófi.
  • Miðnámi (4. – 5. stigi) lýkur með miðprófi.
  • Framhaldsnámi (6. – 7. stigi) lýkur með framhaldsprófi.

Áfangapróf eru dæmd af utan að komandi prófdómurum á vegum prófanefndar tónlistarskóla.

 

  1. Stigspróf. Til undirbúnings áfangaprófum eru haldin innanskóla stigspróf (millipróf).

Stigspróf innan skólans eru: (forstig), 1., 2., 4. og 6. stig.

 

Stigspróf eru dæmd af kennurum innan skólans.

 

Hvenær eru próf tekin? Kennari metur hvenær nemandi er tilbúinn að þreyta stigspróf eða áfangapróf. Forsenda próftöku er að nemandi hafi náð skilgreindum markmiðum um hæfni í hljóðfæraleik/söng, hvað varðar leikni og kunnáttu, yfirferð námsefnis og tónfræðilega þekkingu.

 

Sérstakir prófadagar eru þrír í skóladagatali (fyrir páska í mars/apríl),  en að auki eru tekin próf í lok nóvember.

 

Hvers vegna próf? Próf geta verið mikilvægur hvati til framfara í námi. Sett eru ákveðin markmið og æfingaáætlun fylgt samkvæmt markmiði um próftöku. Sem fyrr segir metur kennari hvenær nemandi hefur öðlast þá færni og þekkingu sem til þarf. Nemendur fara því alla jafna vel undirbúnir í próf, sem gerir upplifun af próftökunni yfirleitt að ánægjulegum þætti í tónlistarnáminu. Um leið fá nemendur staðfestingu á að þeir hafi öðlast ákveðna færni. Prófdómari gefur nemendum umsögn um hvern lið prófsins, sem nýtist nemendum til áframhaldandi framfara.

 

 

Einingar. Að afloknu grunnprófi í hljóðfæraleik/söng geta nemendur fengið tónlistarnám sitt metið til eininga í Fjölbrautaskóla Suðurlands:

Grunnpróf (3. stig) = 10 einingar í 1. þrepi

4. stig = 6 einingar á 2. þrepi

Miðpróf (5. stig) = 10 einingar á 2. þrepi

6. stig = 10 einingar á 3. þrepi

Framhaldspróf (7. stig) = 10 einingar á 3. þrepi

 

  1. Miðsvetrar- og vormat er bæði skriflegt og munnlegt.

Skriflegt – Tvisvar á vetri (í janúar og maí) fá nemendur skriflega umsögn um námsframvindu (t.d. hvað varðar tónmyndun, líkamsstöðu, nákvæmni, ástundun o.fl.). Í umsögn kennara kemur fram hvaða námsþættir hafa gengið vel og hvaða atriði þurfi að vinna áfram, á uppbyggjandi og hvetjandi hátt.

Munnlegt – Í janúar er farið yfir miðsvetrarmatið með nemendum (og foreldrum nemenda yngri en 18 ára) og rætt að auki m.a. um námsframvindu, markmið náms, tónleikahald og næstu próf.

 

  1. Endurgjöf í kennslustundum.

Frá kennara – Í hverri kennslustund fá nemendur endurgjöf frá kennara um þau atriði sem æfð eru hverju sinni. Þeir fá hrós fyrir framfarir og það sem vel er gert, og hvatningu og leiðbeiningar um þau atriði sem unnið er með hverju sinni.

Frá nemanda – Þátttaka nemenda í eigin námsmati er mikilvæg, þar sem þeir meta eigin framfarir heima og í kennslustundum.

 

  1. Tónleikar. Framkoma á tónleikum er mjög mikilvægur hluti tónlistarnáms. Ekki er gefin einkunn eða umsögn fyrir hverja tónleika, en miðað er við að hver nemandi komi fram á tónleikum/viðburðum a.m.k. tvisvar yfir skólaárið.

 

Tónlistarnám snýst ekki hvað sýst um að þjálfast í að leika fyrir áheyrendur. Það er því mikilvægt að fá sem flest tækifæri til að koma fram bæði sem einleikarar og í hópum svo upplifunin verði jákvæð. Markmiðið er að nemendur nái að njóta þess að flytja tónlist og gefa af sér í tónlistarflutningi.

 

  1. Sérkennsla. Tónlistarskóli Árnesinga þjónar breiðum hópi nemenda. Auk hefðbundinna námsleiða samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla, sinnir skólinn einnig nokkrum hópi nemenda sem fer alfarið eftir einstaklingsmiðuðum námsmarkmiðum. Þessi kennsla gefur nemendum möguleika á að njóta sín á eigin forsendum í gegnum tónlist og er einn af mikilvægum þáttum skólastarfsins. Námsmat er unnið út frá námsgetu hvers nemanda. Hvert smátt skref getur verið stórt í því samhengi.
Þessi vefur notar vafrakökur (cookies) til að tryggja sem besta upplifun þegar hann er skoðaður. Þessi borði hverfur þegar þú samþykkir notkun. Þú getur breytt stillingum á kökum hvenær sem er. Í lagi