Jafnréttisáætlun2022-12-07T08:19:08+00:00

Jafnréttisáætlun Tónlistarskóla Árnesinga

1.1.2023 – 31.12.2025

Inngangur

Markmið jafnréttisáætlunar Tónlistarskóla Árnesinga er að gæta jafnræðis og jafnréttis á öllum sviðum skólastarfsins. Áhersla er lögð á að allir fái notið sín án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

 

Jafnréttisáætlun Tónlistarskóla Árnesinga grundvallast á:

65.gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 (https://www.althingi.is/lagas/nuna/1944033.html),

 

Lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020 (Jafnréttislög (150/2020: Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna | Lög | Alþingi (althingi.is)) og

 

Reglugerðar um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustað (https://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?RecordID=a2ce9f38-25e2-4cdf-9ceb-db345e791f80)

 

Sú áætlun sem hér birtist var sett á haustmánuðum 2022 og hefur gildistíma frá 1. janúar 2023 – 31. desember 2025. Ráðgert er að endurskoða hana eigi síðar en haustið 2025.

 

Markmið jafnréttisáætlunarinnar eru eftirfarandi:

i) Launajafnrétti (6. gr.) – Jafnlaunastefna

Tryggja skal launajöfnuð og leitast við að leiðrétta launamun milli kynja ef einhver er (sbr. 6. gr. laga nr 150/2020).

Í 6. grein Jafnréttislaga kemur eftirfarandi fram::

– Konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá skulu greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf.

– Með jöfnum launum er átt við að laun skulu ákveðin á sama hátt fyrir fólk óháð kyni. Skulu þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismunun.

– Starfsfólki skal ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum ef það kýs að gera svo.

 

Tónlistarskóli Árnesinga framfylgir jafnlaunastefnu sinni með eftirfarandi aðgerðum:

  • Öðlast jafnlaunastaðfestingu í samræmi við 7. gr. / 8. gr. laga nr. 150/2020.
  • Framkvæmir launagreiningu og kynnir niðurstöðurnar fyrir starfsfólki.
  • Bregst við með úrbótum og eftirliti ef kröfur staðfestingarinnar eru ekki uppfylltar.
  • Fundi æðstu stjórnenda um jafnréttismál á a.m.k. 3ja ára fresti og samantekt þar sem jafnlaunamarkmið eru samþykkt, greindar eru niðurstöður og lagt mat á þær, farið yfir virkni, viðhald og úrbætur, ef tilefni er til.

 

Framkvæmd: Í lok febrúar ár hvert skal liggja fyrir greining á launum og öðrum kjörum starfsmanna ásamt tölfræðilegri samantekt. Leiðrétta skal laun ef óútskýrður mismunur kemur fram. Niðurstöður árlegrar jafnlaunaúttektar skal kynna fyrir starfsfólki. Komi í ljós kynbundinn launamunur í launagreiningu (vikmörk séu innan +/-2,0%) sem ekki er unnt að skýra með málefnalegum hætti er brugðist við.

 

Laun: Almennt endurgjald fyrir störf og hvers konar frekari þóknun, bein og óbein, hvort heldur er með hlunnindagreiðslum eða með öðrum hætti sem atvinnurekandi greiðir starfskrafti fyrir vinnu. (2. gr. 9. töluliður jafnréttislaga).

 

Kjör: Laun ásamt lífeyris-, orlofs- og veikindaréttindum og hvers konar öðrum starfskjörum eða réttindum sem metin verða til fjár. (2. gr. 10. töluliður jafnréttislaga).

 

Ábyrgðaraðilar: Skólastjóri, aðstoðarskólastjóri.

 

ii) Laus störf, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun. (12. gr.)

Tryggja skal jafnan rétt kynja við ráðningar og val í nefndir/ráð, sem og til endurmenntunar og starfsþjálfunar (sbr. 12. gr. og 16. gr. laga nr. 150/2020).

 

Framkvæmd: Fylgjast skal markvisst með ráðningum, úthlutun verkefna og tilfærslum innan skólans og hvetja fólk óháð kyni til að sækja um og taka þátt, bæði meðal starfsmanna og nemenda. Tryggja skal að konur, karlar og fólk með hlutlausa skráningu kyns hafi sömu möguleika til endurmenntunar og símenntunar og til að sækja námskeið og ráðstefnur, til að auka hæfni í starfi.  Í lok febrúar ár hvert skal leggja mat á þátttöku karla, kvenna og fólks með hlutlausa skráningu kyns.

 

Ábyrgðaraðilar: Skólastjóri, aðstoðarskólastjóri.

 

iii) Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs (13. gr.)

Leitast skal við að gera starfsfólki kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu, óháð kyni (13. gr. laga nr. 150/2020).

 

Framkvæmd: Að vori (apríl) geta kennarar lagt fram óskir um kennslumagn og kennsludaga og verða þær virtar eins og kostur er. Komið er til móts við annað starfsfólk um tilhliðrun vinnutíma á sama hátt. Tryggja skal að karlar, konur og fólk með hlutlausa skráningu kyns hafi sömu möguleika til sveigjanleika.

 

Ábyrgðaraðilar: Skólastjóri, aðstoðarskólastjóri.

 

iv) Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni

Tryggja skal með sérstökum ráðstöfunum að starfsfólk og nemendur verði ekki fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni í skólanum (14. gr. og 21. gr. laga nr. 150/2020)

 

Framkvæmd:  Á vorönn verði kynnt aðgerðaáætlun gegn einelti, kynbundnu áreiti, kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi gagnvart starfsfólki og nemendum í skólanum. Áætlunin verði síðan kynnt í upphafi hvers skólaárs. Kennslustofur verði, sé þess nokkur kostur, með glugga í hurðum svo horfa megi bæði út og inn í stofur.

 

Einelti er skilgreint sem „síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir“ (3. gr. b-liður reglugerðar um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustað (Reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. | Félagsmálaráðuneyti | Reglugerðasafn (reglugerd.is))

 

Kynbundin áreitni er skilgreind sem „Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.“ (2. gr. 4. töluliður jafnréttislaga).

 

Kynferðisleg áreitni er skilgreind sem „Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu þess sem fyrir henni verður, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.“ (2. gr. 5. tölul. jafnréttislaga).

 

Kynbundið ofbeldi er skilgreint sem „Ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.“ (2. gr. 6.töluliður jafnréttislaga).

 

Ábyrgðaraðilar: Skólastjóri, aðstoðarskólastjóri.

 

v) Menntun og skólastarf (15. gr.)

Jafnréttissjónarmið verði samþætt í öllu starfi skólans. Nemendum skal ekki mismunað á nokkurn hátt og jafnréttissjónarmið skulu tryggð, m.a. við val námsefnis og skipulag náms og kennslu (15. gr. laga nr. 150/2020).

 

Framkvæmd: Kynna námsmöguleika og tryggja að hver og einn nemandi geti sótt það tónlistarnám, samspilstíma og hljómsveitaræfingar sem hann kýs og skipulag segir til um.

 

Ábyrgðaraðilar: Skólastjóri, aðstoðarskólastjóri, deildarstjórar, kennarar

 

vi) Auglýsingagerð

Jafnræðis og jafnréttis skal gætt við auglýsingagerð (22. gr. laga nr. 150/2020).

 

Framkvæmd: Fara skal yfir allar auglýsingar og fréttatilkynningar og annað efni sem fer frá skólanum m.t.t. jafnræðis og jafnréttis, áður en það er birt.

 

Ábyrgðaraðilar: Skólastjóri, aðstoðarskólastjóri

 

vii) Andrúmsloft – vellíðan

Leitast skal við að skapa andrúmsloft í skólanum sem stuðlar að vellíðan þeirra sem þar starfa (starfsfólk og nemendur).

 

Framkvæmd: Starfsmenn og nemendur gæti þess á hverjum tíma að koma fram af virðingu við aðra og láti sig velferð náungans varða.

 

Ábyrgðaraðilar: Allir starfsmenn og nemendur.

Þessi vefur notar vafrakökur (cookies) til að tryggja sem besta upplifun þegar hann er skoðaður. Þessi borði hverfur þegar þú samþykkir notkun. Þú getur breytt stillingum á kökum hvenær sem er. Í lagi