Málstefna2022-05-09T11:49:28+00:00

Málstefna Tónlistarskóla Árnesinga

samþykkt á starfsdegi 2. mars 2022

 

 

Málastefna Tónlistarskóla Árnesinga byggir á:

  1. Lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, nr. 61, 7. júní 2011 og
  2. Íslenskri málstefnu 2021-2030, samþykkt 6. september 2021.

 

 

Stefna

Tónlistarskóli Árnesinga þjónar stórum hópi nemenda innan allra sveitarfélaga Árnessýslu. Hann miðlar tónlistarlegri þekkingu til nemenda á öllum aldri og hefur því mikilvægu samfélagslegu hlutverki að genga. Málstefna Tónlistarskóla Árnesinga tekur mið af þessu. Skólinn leggur áherslu á að efla faglega umræðu um tónlistarkennslu á íslensku, samhliða því að miðla á íslensku þekkingu til samfélagsins alls.

 

Íslenska er samskiptamál skólans, bæði sem talmál og ritað mál, hvort sem er í kennslu eða stjórnsýslu. Tónlistarskóli Árnesinga gerir þær kröfur til starfsmanna sinna að vera til fyrirmyndar um notkun íslensku í kennslu.

 

Nemendur skulu fá kennslu á íslensku. Með því að tala íslensku í kennslustundum styðja tónlistarskólakennarar við máltöku og málþroska barna.

 

 

Framkvæmd og útfærsla

  1. Íslenska er samskiptamál skólans. Á það við um talað og ritað mál í samskiptum við nemendur, foreldra, kennara, annað samstarfsfólk og stjórnsýslu.

 

  1. Kennt er á íslensku. Í kennslu eru kennarar hvattir til að ræða við nemendur sína um þýðingar á einstökum hugtökum úr erlendum tungumálum, svo sem ítölsk tónlistarheiti.

 

  1. Erlendir starfsmenn Tónlistarskóla Árnesinga eru hvattir til að sækja námskeið í íslensku og tileinka sér tungumálið. Áhersla er lögð á að erlendir kennarar kenni á íslensku eins fljótt og auðið er og efli um leið orðaforða sinn á kennslufræðilegum og tónfræðilegum hugtökum.

 

  1. Íslenskumælandi kennarar tali íslensku við erlenda kennara. Þetta er mikilvægur liður í að þeir nái tökum á íslenskunni. Með samræðu eykst orðaforði og þeir styrkjast sem einstaklingar í íslensku samfélagi.

 

 

Umsjón og ábyrgð

Skólastjóri ber ábyrgð á málstefnu Tónlistarskóla Árnesinga, en framkvæmd er á ábyrgð allra starfsmanna skólans.

– – –

 

 

 

Þessi vefur notar vafrakökur (cookies) til að tryggja sem besta upplifun þegar hann er skoðaður. Þessi borði hverfur þegar þú samþykkir notkun. Þú getur breytt stillingum á kökum hvenær sem er. Í lagi