Ánægjuleg uppskera – verðlaunahafar á Nótunni

Lokatónleikar Nótunnar, uppskeruhátíðar tónlistarskólanna, fóru fram í Hofi á Akureyri 6. apríl. Á tónleikunum léku tónlistarskólanemendur sem valdir höfðu verið úr hópi hundruða flytjenda á fernum svæðistónleikum Nótunnar í mars, en um 70 nemendur komu fram á lokatónleikunum í 24 atriðum.

Lokatónleikarnir voru einstaklega fjölbreyttir og skemmtilegir, því þarna mátti heyra nemendur á ýmsum námsstigum flytja mjög ólík verkefni s.s. einleik á ýmis hljóðfæri, sinfóníuhljómsveit, þungarokkssveit, söngleikja- og óperusöng, dúetta og tríó af ýmsu tagi svo eitthvað sé nefnt. 10 atriði fengu verðlaunagrip Nótunnar fyrir frammistöðuna og endurspegluðu verðlaunin þá fjölbreytni sem einkenndi dagskrána.

Tónlistarskóli Árnesinga átti tvö atriði á lokatónleikunum í Hofi og voru flytjendurnir sér og skólanum til mikils sóma. Eyrún Huld Ingvarsdóttir, lék 1. þátt úr konsert í a-moll eftir Antonio Vivaldi á fiðlu, við undirleik Einars Bjarts Egilssonar og Rytmasveitin No Sleep (Gylfi Þór Ósvaldsson rafgítar, Jakob Unnar Sigurðarson rafbassi, Valgarður Uni Arnarson rafgítar og Þröstur Ægir Þorsteinsson trommur) lék lagið Something eftir George Harrison.

Svo ánægjulega fór að bæði atriðin frá Tónlistarskóla Árnesinga fengu verðlaunagrip Nótunnar 2019. Að auki var Eyrún Huld önnur tveggja sem fékk viðurkenningu í formi þátttöku á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar áhugamanna á næsta starfsári. Við óskum Eyrúnu Huld og meðlimum No Sleep innilega til hamingju með árangurinn!

Nánari upplýsingar um verðlaunahafa má finna á heimsíðu Kennarasambands Íslands. http://www.ki.is/rss/5241-yngsti-tonlistarskolanemandi-i-sogu-notunnar-til-ad-hljota-utnefningu-fyrir-besta-atridid

Á myndunum hér fyrir neðan má annars vegar sjá flytjendur á sviði í Hofi og hins vegar með verðlaunagripi að aflokinni dagskrá, ásamt kennurunum Vigni Ólafssyni og Guðmundi Pálssyni.

  

Verðlaunahafar á sviði

 

Að aflokinum tónleikum með verðlaunagripina í höndunum.

 

2019-04-11T09:57:17+00:00
Þessi vefur notar vafrakökur (cookies) til að tryggja sem besta upplifun þegar hann er skoðaður. Þessi borði hverfur þegar þú samþykkir notkun. Þú getur breytt stillingum á kökum hvenær sem er. Í lagi