Lög Gunnars Þórðarsonar – frábærir tónleikar

Laugardaginn 19. nóvember stóð Tónlistarskóli Árnesinga fyrir stórtónleikum með lögum Gunnars Þórðarsonar, í íþróttahúsinu Laugarvatni. Hugmyndin að tónleikunum kviknaði sl. vetur, en þá var þema vetrarins Ást og gleði og féllu lög Gunnars vel að því viðfangsefni. Æfingar fóru af stað sl. vetur, en vegna covid gekk illa að halda úti samspils- og hljómsveitaæfingum. Tónleikarnir frestuðust því fram á haustið.

19. nóvember rann loks stóra stundin upp þegar um 130 nemendur og kennarar mættu á Laugarvatn og fluttu einnar og hálfrar klst. dagskrá fyrir um 300 áheyrendur. Það gladdi okkur mjög að Gunnar mætti sjálfur á tónleikana og gaf það tónleikunum enn meiri vikt 🙂

Tónleikarnir voru í einu orði sagt frábærir og mega bæði nemendur og kennarar vera virkilega stoltir af frammistöðunni. EB-kerfi héldu utan um hljóðmálin og gerðu það af mikilli fagmennslu. Áheyrendur skemmtu sér konunglega og fékk tónlistarskólinn mikil lof fyrir tónleikana.

– Í lok tónleika var Gunnari afhentur blómvöndur með þökkum fyrir alla tónlistina og að koma á tónleikana.

 

Að setja saman dagskrá sem þessa er heilmikið verk og ekki á eins manns færi, enda lögðu hér margir hönd á plóg. Kennarar fá innilegar þakkir fyrir allan undirbúninginn, útsetningarnar, æfingarnar, þátttökuna, utan um haldið, flutning tækja og tóla á og af tónleikastað og allt hitt sem fylgir!

 

Stjórnendur hópa o.fl.:

Guðmundur Kristmundsson: útsetningar, sögugerð (byggð á smásögu Jakobs Thorarensen), eldri strengjasveit

Jóhann I. Stefánsson: útsetningarnar, utanumhald, blásarasveit

Margréti S. Stefánsdóttur: söngvarar, söngfuglar

Birgit Myschi: útsetning, gítarsveit

Ulle Hahndorf: yngri strengjasveit

Vignir Ólafsson: rytmasveit, tæknimál

Stefán I. Þórhallsson: slagverk

Helga Sighvatsdóttir: blokkflautusveit

Eyjólfur Eyjólfsson: kynnir

Að auki léku 10 kennarar til viðbótar með hópunum og styrktu þannig tónlistarflutninginn á ýmsa lund.

 

Nemendur fá hjartans þakkir fyrir allan dugnaðinn við æfingarnar, skemmtilegt samstarf og frábæran flutning!

– – –

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá æfingu og tónleikum.

/Helga Sighv.

   

Myndir: Tónlistarskóli Árnesinga

Gunnar Þórðarson (mynd: Magnús Hlynur)

2023-01-27T08:27:03+00:00
Þessi vefur notar vafrakökur (cookies) til að tryggja sem besta upplifun þegar hann er skoðaður. Þessi borði hverfur þegar þú samþykkir notkun. Þú getur breytt stillingum á kökum hvenær sem er. Í lagi